Mikið efni er til um rannsóknir á heimilisofbeldi, meðal annars á umfangi, eðli og afleiðingum þess á börn og fullorðna. Hægt er að nálgast niðurstöður rannsókna á íslensku til dæmis á vef skemmunnar.

 

Skýrsla um stöðu erlendra kvenna sem koma í dvöl í athvarfið kom út í september 2020. Kvennaathvarfið í Reykjavík fékk styrk frá félags- og barnamálaráðuneytinu til að vinna verkefnið.

Markmið vinnunnar var meðal annars að finna það sem hefði hjálpað konunum að komast fyrr úr ofbeldissambandinu. En konurnar voru einnig spurðar út í ofbeldisreynslu sína, teknar voru saman bakgrunnsupplýsingar um konurnar sem og gerendur, tekið var saman hlutfall erlendra kvenna með áverka og aðkoma lögreglu og heilbrigðiskerfis er skoðuð. Farið er yfir afdrif kvennanna að dvöl lokinni og í einhverjum tilfellum eru upplýsingar bornar saman við stöðu íslenskra kvenna sem leita til Kvennaathvarfsins.

Hér er hlekkur á skýrsluna.

 

Nú er komin út skýrsla um stöðu barna af erlendum uppruna, börnum sem flýðu heimili sín vegna ofbeldis og þurftu að dvelja í neyðarathvarfi vegna þessa. Skýrslan heitir „Hvað segir mamma? – Börn af erlendum uppruna í Kvennaathvarfinu

Skýrslan var unnin var af sérfræðingum Kvennaathvarfsins í Reykjavík með styrk frá félags-og barnamálaráðuneytinu. Rætt var við mæður fimmtán barna sem voru í dvöl í athvarfinu á árunum 2019 og 2020.

Í skýrslunni er sjónum meðal annars beint að því hvernig móðir barnsins upplifir stuðning og hvaða þjónustu hún hefur fengið frá kerfinu fyrir sitt barn vegna þess að barnið býr á ofbeldisheimili. Mæður voru spurðar út í aðkomu mæðraverndar, skólans og barnaverndar. Einnig var móðirin spurð um ofbeldisreynslu barnsins; tegund og tíðni ofbeldis. Teknar voru saman bakgrunnsupplýsingar um barnið svo sem um aldur, kyn, tungumálakunnáttu og tengsl við gerandann. Reynt var að meta lífsgæði barnsins með því að spyrja móður út í atriði eins og hvort barnið hafi einhvern til að tala við, hvort barnið eigi góða vini í skólanum, stundi skipulagðar íþróttir eða sé í tónlistarnámi.

Hér er hlekkur á skýrsluna

 

Nýlega var gerð rannsókn á umfangi, eðli og kostnaði heimilisofbeldis eins og það birtist á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Rannsóknin er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Titill greinarinnar er „Women and intimate partner violence: Prevalence of hospital visits and nature of injuries in the Icelandic population“ og birtist hún í rannsóknatímaritinu Scandinavian Journal of Public Health í apríl 2020.

Hér er hlekkur á greinina.

 

Nú er aðgengileg skýrsla sem fjallar um „Líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis og persónuleikaeinkenni ofbeldismanna“. Kvennaathvarfið lét vinna skýrsluna en Velferðarráðuneytið styrkti verkefnið.

Linkur: Líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis og persónuleikaeinkenni ofbeldismanna

Linkur: Ensk útgáfa // English version „Intimate Partner Violence – Survivors Experience and Well being and Perpetrators’ Personality Traits“

 

Hér fyrir neðan eru rannsóknir sem meðal annars hafa verið unnar af starfskonum Kvennaathvarfsins.

„Ég skil ekki alveg af hverju enginn tók eftir því að þarna væri ofbeldi í gangi“ – Lokaverkefni til MA-gráðu í kynjafræði

Hver er upplifun íslenskra kvenna og kvenna af erlendum uppruna sem fara úr ofbeldissamböndum?

Linkur: Ég skil ekki alveg af hverju enginn tók eftir því að þarna væri ofbeldi í gangi.

 

„Erfitt að vera ein og líka erfitt að vera með honum“ 

Hvert fara konur af erlendum uppruna eftir dvöl í Kvennaathvarfinu? Hvað segja þær um þjónustuna?

Linkur: Erfitt að vera ein og líka erfitt að vera með honum.

 

„I don’t know how I ended up here with this man“ 

Rannsókn á aðstæðum og upplifun kvenna af erlendum uppruna sem leita í Kvennaathvarfið.

Linkur: I don’t know how I ended up here with this man.

 

„Hvert á ég nú að fara? Staða kvenna sem ílengjast í Kvennaathvarfinu“ – Lokaverkefni til MA-gráðu í félagsráðgjöf til starfsréttinda

Markmið rannsóknarinnar er að skoða stöðu kvenkyns þolenda heimilisofbeldis sem leitað hafa í Kvennaathvarfið, ílengst þar og átt erfitt með að öðlast sjálfstæði í kjölfarið.

Linkur: Hvert á ég nú að fara?

 

„Ég hefði viljað vita“ Mikilvægi samfélagsfræðslu fyrir innflytjendur – Lokaverkefni til MA gráðu í félagsfræði

Markmið rannsóknar minnar er að varpa ljósi á stöðu kvenna sem flytja frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) til Íslands og lenda í ofbeldissamböndum. 

Linkur: Ég hefði viljað vita

 

„Fremjendur ofbeldis í nánum samböndum og samfélagsleg viðbrögð“ – Lokaverkefni ML í lögfræði

Helstu niðurstöður rannsóknar á gögnum Kvennaathvarfsins renna stoðum undir það að ofbeldismenn séu þversnð íslensks samfélags hvað menntun og störf varðar. 

Linkur: Fremjendur ofbeldis í nánum samböndum og samfélagsleg viðbrögð

 

“Looking at intimate partner violence in heterosexual relationships using Situational Action Theory” – Lokaverkefni til MSc gráðu í afbrotafræði og réttarfari

SAT and Goffman’s dramaturgical approach can both be applied to IPV; however, SAT works better in the IPV context than Goffman’s dramaturgical approach. Results have demonstrated different factors are at play when IPV is analysed, such as: witnessing domestic violence in childhood, alcohol use, jealousy, and pregnancy, among other factors. It seems that a combination of different factors may lead to IPV and not just one factor. These common factors lead to IPV even in different countries.

Linkur: Looking at intimate partner violence in heterosexual relationships using Situational Action Theory

 

„Dvöl barna í Kvennaathvarfinu; Starfsemi Kvennaathvarfsins með tilliti til barna, upplifun barna á dvöl sinni og óskir mæðra um þjónustu þeim til handa.“ – Lokaverkefni til MA gráðu í félagsráðgjöf (höfundur þessa verkefnis er ekki starfsmaður athvarfsins)

Markmiðin skiptust í þrennt og var ætlað að gefa heildarsýn á það hvernig unnið er með börnum sem dvelja í Kvennaathvarfinu. Í fyrsta lagi var sjónum beint að upplifun barna á dvöl sinni í Kvennaathvarfi, í öðru lagi voru kannaðar óskir mæðra sem dvelja með börn sín í Kvennaathvarfi um þjónustu þeim til handa og í þriðja lagi var kannað hvernig unnið er með börnum í Kvennaathvarfinu.

Linkur: Dvöl barna í kvennaathvarfinu.

 

„Að stíga skrefið. Reynsla kvenna af því að slíta ofbeldissambandi“ – Lokaverkefni til MA gráðu í félagsfræði (höfundur þessa verkefnis er ekki starfsmaður athvarfsins)

Rannsókn þessi fjallar um reynslu kvenna af því að slíta ofbeldissambandi við karla. Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð og tekin tíu viðtöl við jafn margar konur. Rannsóknin skiptist í níu kafla. Í þeim fyrsta er fjallað um bakgrunn viðfangsefnisins, takmarkanir rannsóknarinnar og helstu hugtök skilgreind. Í öðrum kafla er fræðileg umfjöllun, samantekt um fyrri rannsóknir og þau úrræði sem standa konum í þessari stöðu til boða og tilgangur rannsóknarinnar kynntur. Þriðji kafli gerir grein fyrir þeim aðferðum sem notaðar voru við framkvæmd rannsóknarinnar, gagnasöfnun og úrvinnslu, auk rannsóknarspurningarinnar. Fjórði til áttundi kafli fjalla síðan um niðurstöður rannsóknarinnar. Í níunda og síðasta kaflanum er rannsóknarspurningunni svarað með því að draga saman helstu niðurstöður ásamt umræðum. 

Niðurstöður benda til þess að það valdi konum mikilli streitu að slíta ofbeldissambandi. Sambandsslitunum getur fylgt hræðsla við karlinn, áhyggjur af fjármálum og húsnæði auk fordóma frá samfélaginu. Allar áttu konurnar við heilsufarsleg vandamál að stríða, líkamleg og andleg, bæði á meðan á sambandinu stóð og eftir að því lauk. Helmingur kvennanna er ekki á vinnumarkaði í dag sökum veikinda. Auk þessa töldu konurnar að þau úrræði sem komið geta konum í þessari aðstöðu til hjálpar væru ekki nægilega góð og að breytinga væri þar þörf.

Linkur: Að stíga skrefið