Athugið að vegna Covid-19 er tímabundið alla jafna boðið upp á símaviðtöl varðandi ráðgjöf og stuðning. Sérstakar ráðstafnir hafa verið gerðar kjósi konur að mæta til okkar í viðtöl.
Athvarfið er opið allan sólarhringinn þeim konum og börnum sem þurfa að koma til okkar í dvöl.
Hvað er dvöl í Kvennaathvarfinu?
Konur og börn þeirra geta dvalist í athvarfinu þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna ofbeldis af hálfu maka eða annara heimilismanna. Athvarfið er einnig fyrir konur sem hefur verið nauðgað og fyrir konur sem eru þolendur mansals.
Á meðan á dvöl stendur býðst konum að fá viðtöl við ráðgjafa athvarfsins. Viðtölin geta verið í formi almennrar ráðgjafar, stuðnings, upplýsingamiðlunar og/eða leiðbeininga. Það er mjög misjafnt hversu lengi konur þurfa að dvelja í athvarfinu og hvers konar þjónustu þær þurfa á að halda.
Við komu í Kvennaaathvarfið fær konan úthlutuðu herbergi með uppábúnu rúmi fyrir sig og börn sín. Konur og börn dvelja sér að kostnaðarlausu. Í Kvennaathvarfinu eru konum og börnum þeirra útvegaðar nauðsynjavörur, svo sem matur og hreinlætisvörur, þeim að kostnaðarlausu. Í athvarfinu hafa konur aðgang að þráðlausu neti, þvottavél og þurrkara.
Börn í athvarfinu
Mæður bera ábyrgð á börnum sínum á meðan dvöl stendur, en starfskonur og sjálfboðaliðar athvarfsins sinna börnunum líka eftir því sem aðstæður leyfa. Nýverið innleiddu starfskonur nýtt verklag með börnunum í athvarfinu. Börn sem náð hafa sex ára aldri fá viðtöl hjá ráðgjöfum þar sem þau fá upplýsingar um athvarfið, fræðslu um ofbeldi og tækifæri til að tjá sig um líðan sína. Þeim eru kynntar húsreglur barna og sýnd teiknimyndin Tölum um ofbeldi sem Kvennaathvarfið lét gera í þessu skyni.
Reynt er að auðvelda börnum komu og dvöl í Kvennaathvarfinu og við athvarfið starfar góður hópur sjálfboðaliða sem sér um afþreyingu fyrir börnin. Barnastarfið er skipulagt út frá stöðunni í húsinu hverju sinni og miðar að því að börnin fái tilbreytingu og upplifi skemmtilegar stundir. Sjálfboðaliðarnir velja afþreyingu í samræmi við aldur barna og aðstæður hverju sinni, oft er farið út, til dæmis í Húsdýragarðinn, í bíó, á róló eða í sund auk þess sem leikhúsin í borginni hafa verið iðin við að bjóða á sýningar. Athugið þó að eins og staðan er í dag vegna Covid-19 faraldursins er töluverð röskun á því hvaða afþreying er í boði,en ráðgjafar athvarfsins reyna þó að gera sitt besta til að brjóta upp daginn og gera eitthvað skemmtilegt. Ef aðstæður bjóða ekki upp á útiveru er aðstaða innanhúss til að vera með börnin í ýmsum verkefnum svo sem að leika, spila eða mála. oðaliðanna að því að mæðurnar í athvarfinu fái tíma fyrir sig sjálfar og að því að skapa ró í húsinu um stund.
Lífið í athvarfinu
Í Kvennaathvarfinu er lögð áhersla á trúnað um það sem fram fer á milli dvalarkvenna og starfskvenna, og almennt er heimilisfang Kvennaathvarfsins ekki gert opinbert. Unnið er samkvæmt þeirri hugmyndafræði að konan sé sérfræðingur í sínum málum og að hún þurfi aðeins tímabundna aðstoð til að takast á við aðstæður sínar og byggja upp líf án ofbeldis. Konum eru veitt stuðningsviðtöl á meðan á dvöl stendur og einnig fá þær oft mikið út úr samskiptum við aðrar dvalarkonur með svipaða reynslu. Starfskonur og dvalarkonur skipta með sér húsverkum. Í húsinu ríkja fáar en mikilvægar húsreglur sem miða að því að sambúð kvenna og barna gangi sem best. Reglur gilda um háttatíma barna og reynt er að skapa öryggi og festu í starfinu svo dvölin verði árangursrík.
Kvennaathvarfið er fallegt og heimilislegt hús þar sem reynt er að líkja eftir venjulegu heimilislífi og allar leggja sitt af mörkum til að vel gangi. Dvalarkonur eru hvattar til að gefa sér tíma í athvarfinu til að ná áttum, hvílast og styrkjast. Þær fá aðstoð við að komast í samband við þá aðila sem geta hjálpað þeim við næstu skref svo sem lögreglu, félagsþjónustu, lögfræðinga og aðra fagaðila. Eftir að dvöl í athvarfinu lýkur geta konur áfram komið í stuðningsviðtöl.
Kvennaathvarfið er heimili, hér eru nokkrar myndir úr Kvennaathvarfinu: