Á myndinni eru Árni Matthíasson, varaformaður stjórnar Samtaka um kvennaathvarf, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Tímamót í sögu Kvennaathvarfsins urðu 11. nóvember sl. þegar Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifaði undir samning við Samtök um kvennaathvarf þar sem ríkisstjórn Íslands leggur til 100 milljónir króna meðal annars til að byggja nýtt neyðarathvarf í Reykjavík á vegum samtakanna, en einnig að styrkja þjónustu athvarfsins vegna áhrifa kórónaveirunnar. Fjárveitingin er hluti af sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar. Reykjavíkurborg mun úthluta lóð til verkefnisins en við sama tilefni undirritaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lóðarvilyrði undir hið nýja neyðarathvarf.
Fjármunirnir verða nýttir í viðgerðir og endurbætur á núverandi húsnæði Kvennaathvarfsins, sem stuðningur til lóðakaupa og við hönnun á nýju neyðarathvarfi sem og í framkvæmdir og byggingu nýs áfangaheimilis.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf hafði þetta um málið að segja: „Það er gleðidagur í Kvennaathvarfinu. Þó er varla hægt að segja að draumur sé að verða að veruleika því við höfum aldrei beinlínis leyft okkur að eiga draum um sérhannað húsnæði til að reka athvarfið í. Við erum sennilega ekki búnar að átta okkur fyllilega á því hvað þetta býður upp á marga möguleika en horfum með gleði til þess að taka á móti konum og börnum í húsi sem byggt var sérstaklega fyrir þau og er aðgengilegt fyrir alla. Upp úr stendur þakklæti í garð þeirra sem hafa komið okkur á þennan stað í verkefninu og fyrirfram þakklæti í garð þeirra fjölmörgu sem við vitum að eiga eftir að hjálpa okkur við að koma upp nýju Kvennaathvarfi.“ – af vef Stjórnarráðs Íslands