Linda Dröfn Gunnarsdóttir hefur verið ráðin til að gegna starfi framkvæmdastýru Samtaka um kvennaathvarf. Hún tekur við starfinu af Sigþrúði Guðmundsdóttur, sem stýrt hefur athvarfinu s.l. 16 ár.
Linda er með meistaragráðu í Evrópufræðum frá Árósarháskóla og B.A. í spænsku frá Háskóla Íslands. Auk þess er Linda með kennsluréttindi og hefur einnig lokið rekstrar- og fjármálanámi frá Opna Háskólanum í Háskólanum í Reykjavík.
Linda hefur umfangsmikla reynslu af starfi í fjölmenningarsamfélagi og með fólki með fjölbreyttan bakgrunn. Hún hefur starfað lengi í alþjóðamálum og málefnum flóttamanna en hún gegndi stöðu verkefnastjóra vegna komu flóttafólks hjá Ísafjarðarbæ og starfar í dag sem verkefnastjóri þróunarverkefna og staðgengill forstöðumanns hjá Fjölmenningarsetri. Hún er með sterkan stjórnunarlegan bakgrunn og sinnti m.a. tímabundið starfi framkvæmdastjóra Eflingar nú nýverið.
Samtök um kvennaathvarf eru 40 ára á þessu ári, en þau voru stofnuð af kjarkmiklum konum þann 2. júní 1982 og var fyrsta Kvennaathvarfið opnað 6. desember sama ár. Samtök um kvennaathvarf voru í upphafi grasrótarsamtök en árið 1995 var horfið frá því fyrirkomulagi og mynduð formleg samtök. Árið 2010 var stofnuð sjálfseignarstofnun um húseign Kvennaathvarfsins en rekstur athvarfsins hélst óbreyttur. Nú er unnið að fjármögnun nýs húsnæðis undir starfsemi athvarfsins, þar sem hægt verður að sinna breiðari hópi þjónustuþega. Árið 2023 er fyrirhugað að hefja byggingu þessa fyrsta sérhannaða athvarfs fyrir konur, kynsegin fólk og börn þeirra, sem eru þolendur heimilisofbeldis.
„Þetta eru mjög spennandi tímamót fyrir nýja framkvæmdastýru að koma inn í Kvennaathvarfið. Það hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á rekstri athvarfsins á síðustu árum, bygging og rekstur áfangaheimilis fyrir 18 konur og athvarf á Akureyri hafa nýlega bæst við. Auk þess er undirbúningur fyrir byggingu nýs athvarfs í fullum gangi. Þessi nýju verkefni til viðbótar við rekstur neyðarathvarfsins í Reykjavík eru talsvert mikil áskorun. Það er því mikilvægt að fá inn hæfan stjórnanda sem býr yfir þeim persónuleika og reynslu sem Linda Dröfn hefur og við hlökkum til að fá hana til liðs við Kvennaathvarfið.“ segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, stjórnarformaður Kvennaathvarfsins.