Á fjórða tug samtaka kvenna og launafólks blása til heils dags kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi.
Þó að ýmislegt hafi mjakast í jafnréttisátt á undanförnum áratugum, er kynbundið ofbeldi ennþá faraldur sem fær að geysa óáreittur um flest þau rými sem konur lifa og hrærast í. Aðsóknartölur Kvennaathvarfsins hafa lítið breyst í þau rúmlega 40 ár sem athvarfið hefur starfað og aðsókn í viðtalsþjónustu hefur aukist jafnt og þétt.
Ungum konum er kennt að varast að vera einar með ókunnugum karlmönnum, ekki vera á ferli einar eftir að dimma tekur og ferðast saman í hópum. Mesta ógnin sem að konum steðjar er þó alls ekki af hendi ókunnugra karla í dimmum húsasundum, heldur verða þær í flestum tilfellum fyrir kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi heima hjá sér, heima hjá vinum eða fjölskyldu, af hendi fyrrverandi eða núverandi eiginmanns, kærasta, vinar eða ættinga. Þetta sýna bæði tölur Kvennaathvarfs og Stígamóta. Konur virðast hvergi öruggar.
Ofbeldi gegn konum er heimsfaraldur og sýna tölur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að ein af hverjum þremur konum hafi upplifað ofbeldi og ofbeldi í nánu sambandi þar sem líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi var beitt. Miklu fleiri konur hafa orðið fyrir hvers konar kynbundnu misrétti, áreiti eða ofbeldi.
Vegna algengis kynbundins ofbeldis og heilsufarslega afleiðinga þess ætti það að vera skilgreint sem lýðheilsumál, því það varðar okkur öll.
Ein af meginkröfum Kvennaverkfallsins 24. október er að við leggjumst öll saman á árarnar og útrýmum kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi auk þess sem vanmat á svokölluðum kvennastéttum verði leiðrétt.
Við hvetjum öll sem vettlingi geta valdið að sýna samstöðu í verki, fylkja liði og mæta á útifund í Reykjavík eða samstöðufundi um landið – sjá nánar á kvennaverkfall.is