Í dag fagnar Kvennaathvarfið 37 ára afmæli sínu. Það var úr að hafa afmælisdaginn sannkallaðan útgáfudag því í dag birtist á síðu Fréttablaðsins grein eftir starfandi framkvæmda-og fræðslustýru athvarfsins, Hildi Guðmundsdóttur. Greinin ber titilinn Vinnustaðir sem vettvangur í baráttunni gegn heimilisofbeldi og er framlag athvarfsin í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.
Í dag var líka lokið við að talsetja teiknimyndina „Tölum um ofbeldi“ á spænsku, en aðalmarkmið myndarinnar er að koma ákveðnum skilaboðum til barna og einnig að gera þann hóp barna sem býr við heimilisofbeldi sýnilegri í samfélaginu.
Hér er slóðin á spænsku útgáfuna en við vonum að hún komi að góðum notum. Verið er að vinna í því að láta talsetja myndina á enn fleiri tungumál en hún er nú þegar aðgengileg hér á íslensku, ensku og norsku.
Kvennaathvarfið fékk styrk frá Velferðarráðuneytinu til að gera könnun á upplifun og líðan kvenna sem eru þolendur heimilisofbeldis en einnig að kanna hvernig þolendurnir upplifa persónuleika ofbeldismannanna. Því verkefni lauk í desember 2018 en í framhaldinu var ákveðið að láta þýða verkefnið á ensku. Í dag lauk því verkefni formlega þegar ensk þýðing skýrslunnar var gerð aðgengileg hér á vef athvarfsins. Íslenska útgáfan er líka aðgengileg hér.