Ef þú hefur lent í eða grunar að einhver hafi orðið fyrir ofbeldi má hafa beint samband við lögregluna í síma 112, en það er hins vegar skylda þín að hafa samband við barnavernd í slíkum tilfellum.

Hér er hægt að tilkynna til barnaverndar þegar ástæða er til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni, ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Einnig ef ástæða er til að ætla að atferli manns, sem starfa sinna vegna hefur samskipti við börn, sé stórlega ábótavant.

Nokkur atriði sem hjálplegt er að hafa í huga ef barn segir frá ofbeldi.

Hvað á að gera:

  • Trúðu barninu
  • Tryggðu öryggi barnsins
  • Hafðu samband við barnavernd

Það er mikilvægt að:

  • Barnið finni að það hafi gert rétt með því að segja frá
  • Útskýra fyrir barninu að ofbeldið sé ekki því að kenna
  • Muna að þín viðbrögð skipta máli fyrir framtíðarhorfur barnsins og hvernig það mun takast á við afleiðingar ofbeldisins

Það er skylda þeirra sem grunar eða vita af misnotkun í garð barna að tilkynna til barnaverndar.

Eftirfarandi er úr barnaverndarlögum nr. 80/2002

IV. kafli.Tilkynningarskylda og aðrar skyldur við barnaverndaryfirvöld.

16. gr. Tilkynningarskylda almennings.
Hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd.

Annars er hverjum manni rétt að gera barnaverndarnefnd viðvart um hvert það tilvik sem telja má að hún eigi að láta sig varða.

17. gr. Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum.
Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.

Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.

Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.